Á leið til Apaflóa
Jæja góðir hálsar... þá er komið að því að blogga. Ég er alveg dottin úr æfingu þar sem það er ansi langt síðan ég hélt úti síðu sem þessari ...en það gerir þetta bara rosa spennandi. Hér í Malaví er mjög gott að búa um leið og það er mörgu að aðlagast. En síðustu þrjár vikur hafa flogið áfram um leið og mér finnst ég hafa verið hér í óratíma...en það er nokkuð týpískt í svona aðstæðum. Við stöllur tókum á móti þriðja hjúkrunarfræðingnum, henni Guðbjörgu í höfuðborginni síðastliðinn þriðjudag. Hún kom sigri hrósandi í mark, hafði reyndar verið tekinn af henni einn farmiðinn heim í flugvélinni frá Kenya en það reddaðist á flugvellinum í Lilongwe. Hún er alveg svaka hress og við skelltum henni beint í fjörið- fórum út að snæða með vinum okkar og kíktum á bar sem kallast Harry´s bar á eftir. Við kvöddum hana síðan morguninn eftir og héldum út í sveitina okkar á clinicið í Madisi, en hún Guðbörg verður í aðlögun núna í höfuðstöðvunum...þar sem mér skilst reyndar að hún hafi mjög lítið að gera. En eins og svo oft hefur verið minnst á í fréttum okkar héðan, þá gerast hlutirnir alveg ískyggilega hægt og það tekur tíma að aðlagast þessu tempói. En góðir hlutir gerast hægt og við minnum okkur á það í huganum nokkrum sinnum á dag. Plönin fyrir helgina eru að verða til en við hjúkku-tríóið ætlum að bregða okkur til Monkey bay þar sem Þróunarsamvinnustofnun er að vinna sín litlu kraftaverk og mögulega kynna okkur aðeins þau góðu verkefni . Það er einnig verið að kveðja einn starfsmann úr þeirra röðum og verða því allir saman komnir að því tilefni og það verður ábyggilega ekki leiðinlegt að hitta þann hóp.
Við fengum þær fréttir í dag að við fáum sennilega að fara með í skólaverkefni í norðurhluta landsins í lok október og erum við mjög spenntar fyrir því. Þá mælum við krakkana í bak og fyrir og metum næringarástand þeirra. Þetta er seinna mat af tveim, en verið er að meta áhrif þess að þau hafa verið að fá næringargraut í skólanum. Um leið á skimun sér stað þar sem krakkar sem er vannærðir eru fundnir og fá þá aukalega næringu til að bæta þeirra ástand. Þetta verður rúmlega vikulöng ferð og farið alla leið norður til Karonga sem er nálægt landamærunum við Tansaníu. Við gleðjumst mjög yfir þessu og hlökkum mikið til þess að fá loks að taka til hendinni, en það er ennþá mjög rólegt að gera á clinicinu okkar. Það er þó búið að ráðleggja okkur að njóta þess á meðan er rólegt þar sem það verður víst nóg að gera þegar farandheilsugæslan fer af stað. Við bíðum og sjáum til og erum þolinmæðin uppmáluð. Kyrrðin í sveitinni er mjög notaleg og hægt að gera ýmislegt sér til dundurs hér. Við nýttum ferðina til Lilongwe síðast og versluðum inn alls kyns nauðsynjar allt frá hitamælum (sem virka) að paracetamóli (sem hefur ekki verið til hingað til og við þegar búnar að láta af hendi allar okkar byrgðir af því góða verkjalyfi).
Það má því segja að ég sé hin glaðasta, smá niðurgangur öðru hverju á meðan meltingarvegurinn er að vinna upp ónæmi og slatti af moskítóbitum, mýs og rottur í hýbílunum og huge kakkalakkar á útikamarsholunni okkar er ekkert sem skiptir máli og er nokkuð auðvelt að aðlagast. Fallega sólarlagið, stjörnurnar, tunglið og öll brosin sem maður fær dag hvern bæta fljótt fyrir þessi smáatriði. Fyrir utan það hvað maður gleðst yfir því litla eins og að fá einn góðan kaffibolla endrum og eins þegar farið er miðsvæðis þegar í höfuðborgina er komið. Já það er svo sannarlega dásamlegt að vera komin hingað og fá tækifæri til þess að takast á við ný verkefni og þroskast.
Ég þakka fyrir allan hlýhug frá yndislegum vinum og ættingjum sem komið hafa í gegnum þennan ágæta miðil sem internetið er og sendi mínar bestu kveðjur heim og reyni að vera dugleg í þessu bloggstandi þegar við komumst í samband
Benedikta
Friday, October 3, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
ooh, þetta er svo fjarstæðukennt. Ég get ekkert ímyndað mér hvernig þetta er þarna hjá þér. :)
Þetta fer beinustu leið í reynslubankann, ha! Og þú veist að hann er beint á móti gleðibankanum....
jæja...Hlakka til að fá meiri fréttir frá þér, og vonandi myndir.
Ohhh sæta!
Vertu dugleg að segja frá! Það er svo gaman að fá fréttir! Knús frá kreppulandinu mikla! Er að vona að fólk fari ekki að panikka hérna heima... ég allavega ætla bara að halda mínu striki og vera bjartsýn og vonandi smitast það til annarra!
Svava
Úff hvað ég er stolt af þér að takast á við rottuvandamálið. Er búin að hugsa um þetta öðru hverju síðan þú sagðir mér frá þessu í sumar. En þetta hljómar allt ofsa spennó og áhugavert, gangi ykkur sem allra best. bið að heilsa gunnhildi
þóra
Post a Comment