Thursday, October 23, 2008

Leið um Lilongwe

Komin í stutta ferð til höfuðborgarinnar Lilongwe, en við þurftum að eiga lítið erindi við ráðamenn hjá samtökunum sem við vinnum fyrir. Það gekk allt eins og í sögu til allrar lukku og allir eru núna sáttari og skilja hvorn annan betur en áður - en góð og heilbrigð samskipti eru jú einstaklega mikilvæg ef vel á að ganga og við stöllur hér í Malaví ætlum að reyna að hafa það að leiðarljósi.

Við erum núna á Korea Garden Lodge sem er gistiheimili sem býður viðskiptavinum sínum upp á ókeypis netsamband á meðan á vist stendur... og er þetta semsé orðið nýjasta trikkið okkar til þess að geta verið langtímum saman á netinu og borgað tiltölulega litla upphæð fyrir ódýrasta herbergið sem er í boði. Þetta kemur ótrúlega vel út og bónusinn er að það er rosa fínn morgunmatur innifallinn að auki. "Those little things in life"

Það er nú orðið ansi langt síðan ég hef eitthvað getað bloggað, en síðustu fréttir voru þær að við vorum á leið til Monkey bay og var það svo sannarlega frábær ferð í alla staði. Það var einstaklega gaman að sitja í hjá þeim hjónum Stefáni Jóni og Guðrúnu og svo er bara svo fallegt þarna við Lake Malawi. Mikil náttúrufegurð og friður á þessu svæði og ætlum við án efa að leggja leið okkar þangað á meðan á dvöl okkar stendur. Við fórum einnig á tónlistarhátíð þarsíðustu helgi og síðustu helgi eyddum við í rafmagnslausri sveitasælu rétt fyrir utan höfuðborgina þar sem við vorum í keramik kennslu, lærðum chichewa og hefðbundna dansa. Þetta var fullkomin helgi og batteríin voru fullhlaðin þegar heim var komið.

Annars höfum við verið mjög glaðar og kátar heima í sveitinni okkar en síðustu vikur höfum við eytt miklum tíma með litlu krökkunum sem þar búa og safnast þau nú saman, um sjötíu talsins, og bíða okkar eftir hádegismatinn. Ég sé um að þjálfa strákana í knattspyrnu og Guðbjörg og Gunnhildur sjá um leiki fyrir hina krakkana sem eru piltar og stúlkur á aldrinum 2ja-13 ára. Þetta er rosa gaman og hefur glatt mitt hjarta meira en orð fá lýst, það er nefnilega ansi rólegt að gera á clinicinu, sérstaklega eftir hádegi, og þessi þróun hefur einhvernveginn gefið mér mikla lífsorku og ástæðu til að vakna á morgnanna. Bros og gleði þessara krakka er nokkuð sem er ekki hægt að útskýra með orðum. Upp úr þessu er að verða til lítið verkefni sem við ætlum að reyna að setja á fót sem í grófum dráttum byggist á því að reyna að byggja upp leikvöll, knattspyrnuvelli og fjárfesta í ýmsum aðbúnaði sem tengist íþróttum og leikjum fyrir þessa þakklátu krakka. Nú þetta hefur fengið góðan hljómgrunn hjá öllum okkar æðri mönnum hjá stofnuninni og við ætlum að setja fljótlega af stað söfnun en það gerum við með því að senda lítið fréttabréf til okkar vina og vandamanna. Það er svo gaman hvað svona hlutir gefa lífinu mikið gildi. Fyrsti leikur liðsins míns verður á morgun og þess vegna þarf ég að drífa mig aftur til Madisi á morgun og styðja við strákana mína:)

Annars er fyrsta ferðin okkar að verða loks að veruleika. Ég fer með medical officernum af stað í skólana fyrir norðan á sunnudagsmorgun að meta næringarástand og stelpurnar fara í suðrið með farandsheilsugæslunni. Við erum allar mjög spenntar fyrir þessu... enda búnar að bíða þess lengi að hefja smá vinnutörn... við erum náttúrulega alltaf pínku klikkuð og vinnusjúk við Íslendingarnir og erum við engin undantekning þess.

Það má því segja að það sé allt alveg svakalega gott að frétta héðan og erum við þegar farnar að ræða það að reyna að framlengja dvöl okkar... þetta er náttúrulega bara á umhugsunarstigi ennþá .. en við erum voða glaðar að vera hér og sleppa við allt kreppustandið heima.... það er líka allt svo hjákátlegt þegar maður eyðir hverjum degi með krökkum sem eru drulluskítug með hangandi fatagarma utan á sér, og sú staðreynd að konan sem sér um húsið sem þú býrð í fær 2000 ísl. krónur á mánuði og býr í tíu fermetrum. En auðvitað eru þetta bara ólíkir heimar og ekki réttlátt eða hægt að bera þetta saman. Ég er bara svo glöð að hafa fundið og sannreynt þá hugmynd sem ég hafði fyrir .. að þeir eru hamingjusamari sem minna eiga þar sem þeir lifa fyrir hvern dag og eiga auðveldara með að vera í núinu og gleðjast yfir litlu hlutunum. Ólíkt þeim sem hafa fyllt líf sitt veraldlegum gæðum sem því miður í einhverju meðvitundarleysi byrjar að stjórna lífi þeirra þar sem allt snýst um að eignast, þurfa og langa. Það verður samt óneytanlega spennandi að koma aftur heim þar sem kreppan mun vonandi hafa haft að einhverju leyti jákvæð áhrif á þjóðarsálina. "Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott" og er ég viss um að kreppan sé dæmi um það! Það er ástæða fyrir öllu.... ekki satt


Bestu kveðjur til allra... sérstaklega móður minnar hennar Sigríðar sem er að verða sjötug þann 24.okt en hún er einstök manneskja með eitt það fallegasta hjarta sem til er og var ég meira en lítið gæfusöm að fá að koma til hennar í þessu jarðlífi. Takk mamma og ég vona að þú sért að blómstra og lifa. Svo er það sénýið hann bróðir minn, Sigurður Haukur - hann verður fertugur þann 25.okt en hann er líka alveg magnað eintak af einsakling, hefur ávallt verið mikill verndari minn og reddar öllu fyrir alla ef hann mögulega getur. Takk fyrir allt og til hamingju með 110 árin saman. Knús til fjölskyldunnar á þessum skemmtilegu tímamótum! Elska ykkur

Læt þetta vera lokaorðin
mínar bestu kveðjur
Ditta

2 comments:

johanna said...

Hæ Ditta

Gaman að fylgjast með þér. Þetta er spennandi verkefni með leikvellina. Meiriháttar.
Hér í Haukadalnum er allt hvítt og þessa stundina snjóar yndislegum "jólasnjó".
Baldur er einmitt sofandi úti og hefur það greinilega gott.
Af okkur er allt gott að frétta.

Bestu kveðjur í bili
Hanna Sigga og Strákarnir

jbo said...

Hæ Ditta mín.
Gaman að sjá hvað þið látið gott af ykkur leiða. Þið eruð bara frábærar ;-)
Kíktu endilega á hotmailið þitt því við hér í Akureyrardeild Rkí viljum endilega styðja ykkur með börnin og hjálpa ykkur.

Knús og kram
Jóna Birna